Fyrir nokkrum árum rakst ég á DIY síðu (Do It Yourself) sem sýndi geggjað pappírsljós sem var hannað af grafíska hönnuðinum Gabrielle Guy. Þannig að ég fór á stúfana og fann enn fleiri aðferðir á elsku Google og daginn eftir skundaði ég í IKEA, keypti mér svona kringlótt pappírsljós (minnir að þau kosti undir 1000 krónur) og fór að klippa niður pappírinn. 16-17 klukkustundum síðar var ég komin með mitt fyrsta ljós, alsæl en þokkalega död í höndunum en þetta krefst ágætis þolinmæði to say the least! Skellti síðan ljósinu upp í stofunni og póstaði mynd á facebook alveg agalega montin með nýja stofustássið og eins og þið sjáið var hundurinn líka dolfallinn.
Áður en ég vissi af var ég farin að gera svona ljós fyrir aðra, þar á meðal bleikt ljós fyrir eina litla prinsessu. Þá keypti ég minni pappírsljósakrónu úr Habitat og spreyjaði hana föl bleika en ef þið ætlið að spreyja þessar pappírskúlur þá mæli ég með því að vera alls ekki nálægt með spreyið og ekki spreyja of mikið því pappírinn rifnar auðveldlega. Síðan festi ég ljósbleikar pappírsræmur á ljósið en ég vildi ekki hafa þetta of dökkt þannig að birtan komi betur í gegn og enn í dag sé ég eftir því að hafa ekki tekið mynd af þessu prinsessuljósi!
Ljósið hefur tvisvar birst í Hús og Hýbíli, fyrst í innliti til Söru Maríu fatahönnuði og eiganda Forynju og síðar í grein með skemmtilegum hugmyndum fyrir heimilið.
Hér sést ljós eftir mig við turkislitaðan vegg og peran skiptir litum, kemur rosalega skemmtilega út!
Ljósið tekur sig vel út í nýju stofunni en þið verðið að afsaka léleg myndgæði í þessum pistli þar sem önnur hver mynd er tekin af instagram eða facebook.
Ég hef séð svona ljós gerð úr teiknimyndablöðum, tískublöðum, litaskipt og einnig er hægt að leika sér að því að hafa blöðin mislöng þannig að ljósið fái á sig skemmtilegt form. Þegar ég gerði ljósið fyrst notaði ég sterkt lím í túbu en þá þarf að halda pappírnum saman í nokkrar sekúndur til að hann festist þannig að ég notaði næst límbyssu en sú aðferð var mun fljótlegri en það er best að setja límið á pappírsstrimlana og festa þá á ljósið en ekki öfugt því pappírinn á ljósinu er svo viðkvæmur. Best er að byrja neðst og færa sig síðan upp ljósið en gott er að fylgja röndunum á ljósunum en ódýrustu pappírsljósin eru ekki með svona rendur og þá þarf að vanda sig þegar pappírsræmunum er raðað á ljósið, því þéttari sem þau eru því fallegra verður ljósið.
Þá er bara að vinda sér í föndur!
Með von um hækkandi sól og hærra hitastig <3
Perla


















































