laugardagur, 4. apríl 2015

Björgunaraðgerðir tekksins

Ég rakst á stutta frásögn á netinu um björgun á tekk kommóðu sem var illa farin. Bæði var hún illa rispuð og með vatnsbletti. Þegar ég sá fyrir og eftir myndirnar varð mér hugsað til elsku borðstofuborðsins míns en það fór illa í fluttningunum (rispaðist illa) og einnig var það blettótt eftir að dóttir mín kær ætlaði að þrífa það og spreyjaði á það hreinsiefni og eftir urðu blettir (þið getið rétt ýmindað ykkur sjokkið hjá elsku stelpunni sem ætlaði að gera mömmu sinni greiða). 



Eins og þið sjáið þá var borðið mjög illa farið sérstaklega eftir spreyið en flassið gerir það mun verra en maður sá í raun. Ég byrjaði á því að pússa létt yfir blettina með mjög fínum sandpappír (alls ekki fara djúpt) því hreinsiefnið tók í raun lakkið af borðinu. Síðan blandaði ég 1/4 af ólífuolíu og 3/4 af eplaediki. 


Síðan byrjaði ég að pússa olíunni á borðið vopnuð hreinum klút og skeið til að hræra reglulega í olíunni, fylgdi bara æðunum í borðinu og gætti þess að nudda vel ofan í viðinn. Ég fór tvær umferðir á miðjuborðinu en bara eina á sitt hvorum endanum þar sem það er svolítill litamunur á plötunum. 

Og voilla! Þvílíkur munur blettirnir og rispurnar sjást varla en flassið gerir litamuninn á plötunum meira áberandi en hann er í raun og veru. 


Og þá fór mín í gang! Ég pússaði litlu kommóðuna mína sem er undir fermingargræjunum líka og er enn að jafna mig á hversu svakalegur munur er á henni... og núna bíð ég bara spennt eftir að eiginmaðurinn sé búinn að horfa á sjónvarpið svo ég geti pússað sjónvarpskápinn! 



Þessi dúlla stillti sér upp þegar ég byrjaði að taka myndir þannig að hann fær að vera með, þetta er annar af hundum heimilisins og heitir Moli. 

Hafið það extra náðugt um páskana! 
Kær kveðja 
Perla

Engin ummæli:

Skrifa ummæli