mánudagur, 27. apríl 2015

DIY pappírs ljós

Fyrir nokkrum árum rakst ég á DIY síðu (Do It Yourself) sem sýndi geggjað pappírsljós sem var hannað af grafíska hönnuðinum Gabrielle Guy. Þannig að ég fór á stúfana og fann enn fleiri aðferðir á elsku Google og daginn eftir skundaði ég í IKEA, keypti mér svona kringlótt pappírsljós (minnir að þau kosti undir 1000 krónur) og fór að klippa niður pappírinn. 16-17 klukkustundum síðar var ég komin með mitt fyrsta ljós, alsæl en þokkalega död í höndunum en þetta krefst ágætis þolinmæði to say the least! Skellti síðan ljósinu upp í stofunni og póstaði mynd á facebook alveg agalega montin með nýja stofustássið og eins og þið sjáið var hundurinn líka dolfallinn. 



 Áður en ég vissi af var ég farin að gera svona ljós fyrir aðra, þar á meðal bleikt ljós fyrir eina litla prinsessu. Þá keypti ég minni pappírsljósakrónu úr Habitat og spreyjaði hana föl bleika en ef þið ætlið að spreyja þessar pappírskúlur þá mæli ég með því að vera alls ekki nálægt með spreyið og ekki spreyja of mikið því pappírinn rifnar auðveldlega. Síðan festi ég ljósbleikar pappírsræmur á ljósið en ég vildi ekki hafa þetta of dökkt þannig að birtan komi betur í gegn og enn í dag sé ég eftir því að hafa ekki tekið mynd af þessu prinsessuljósi! 


Ljósið hefur tvisvar birst í Hús og Hýbíli, fyrst í innliti til Söru Maríu fatahönnuði og eiganda Forynju og síðar í grein með skemmtilegum hugmyndum fyrir heimilið. 


Hér sést ljós eftir mig við turkislitaðan vegg og peran skiptir litum, kemur rosalega skemmtilega út! 


Ljósið tekur sig vel út í nýju stofunni en þið verðið að afsaka léleg myndgæði í þessum pistli þar sem önnur hver mynd er tekin af instagram eða facebook.

Ég hef séð svona ljós gerð úr teiknimyndablöðum, tískublöðum, litaskipt og einnig er hægt að leika sér að því að hafa blöðin mislöng þannig að ljósið fái á sig skemmtilegt form. Þegar ég gerði ljósið fyrst notaði ég sterkt lím í túbu en þá þarf að halda pappírnum saman í nokkrar sekúndur til að hann festist þannig að ég notaði næst límbyssu en sú aðferð var mun fljótlegri en það er best að setja límið á pappírsstrimlana og festa þá á ljósið en ekki öfugt því pappírinn á ljósinu er svo viðkvæmur. Best er að byrja neðst og færa sig síðan upp ljósið en gott er að fylgja röndunum á ljósunum en ódýrustu pappírsljósin eru ekki með svona rendur og þá þarf að vanda sig þegar pappírsræmunum er raðað á ljósið, því þéttari sem þau eru því fallegra verður ljósið. 



Þá er bara að vinda sér í föndur! 
Með von um hækkandi sól og hærra hitastig <3
Perla

sunnudagur, 26. apríl 2015

Teip-art

Teip-art er algjör snilld þegar kemur að ódýrri lausn hvort sem það er tómlegur veggur eða húsgagn sem þarf að redda og eru möguleikarnir í raun endalausir. Áður en teipaður er veggur þarf að þrífa hann vel og lofa honum að þorna og ekki þýðir að líma á nýmálaðan vegg, það mun bara detta af fljótlega. Því er gott að bíða í 2-3 vikur áður en teipað er. Gott er að vera búin að ákveða hvers konar mynstur á að fara á vegginn og stærðina og munið að less is more svo að teipið hertaki ekki rýmið. Gott er að hafa við hendina hreinan klút til að þrýsta teipinu betur niður á vegginn, fíngerð skæri eða jafnvel föndurhníf til að skera endana og munið að alls ekki toga teipið til að það nái því það mun bara ganga til baka með tímanum. Best er að draga smátt og smátt út bút af rúllunni og þrísta honum niður á vegginn með puttunum þannig að það teygist ekki á teipinu og þrýsta síðan yfir það með klútinum.  

Ég hef nýtt mér þessa leið til að redda tómlegum veggjum heimilisins og ég fékk hugmyndirnar á pinterest en ég notaði leitarorðið tape wall art. Hreindýrið er frekar stórt sem er aðeins erfiðara fyrir óvana en þessi dásemd er enn í anddyrinu en hyrningarnir voru tímabundin redding sem var hent upp á núll einni. 




Eins og þið sjáið á hyrningunum þá er teipið byrjað að losna af í hornumum og hornin eru ekki fullkomin en þetta getur verið góð og ódýr tímabundin redding fyrir óþolinmóða sem vilja reddingu á ljóta eða tómlega veggi sem á t.d. eftir að mála en til lengri tíma er gott að gera þetta almennilega til að teipið haldist. 












Þessi snilld einskorðast ekki eingöngu við veggi því einnig er hægt að "pimpa upp" húsgögn, hurðar, gólf og hin ýmsu heimilistæki.








Oftast er þessi snilld kennd við Washi tape hvort sem það teip er notað eður ei þá virðist nafnið hafa festst við þá list að teipa allt milli himins og jarðar en einnig eru til aðrar tegundir af svipuðum teipum.

Washi tape kemur frá japan og er búið til úr pappír en "wa" þýðir í raun japanskt og "shi" þýðir pappír og orðið washi er því notað yfir pappír sem er búinn til eftir ströngum reglum japanskrar arfleiðar í pappírsgerð. Washi tape er hálfgegnsætt en flest eru þó mjög sterk. Hægt er að fá þau mynstruð og í alls kyns litum til að lífga upp á lífið og tilveruna. 











Þá er bara að skella sér í næstu föndurbúð eða húsgagnaverslun og fjárfesta í teiprúllu og teipa eins og vindurinn! 

Knús og kremj
Perla



mánudagur, 13. apríl 2015

Lovestar


Lovestar er hugarburður ástralans Helen Bayley. Hún sagði upp starfi sínu sem lögmaður til að fara út í framleiðslu á þessum æðislegu vösum en þau senda um allan heim þannig að hægt er að fá þessar dásemdir hingað á klakann með því að panta af heimasíðu þeirra. Vasarnir hafa vakið mikla athygli erlendis og hafa birst í hinum ýmsu blöðum eins og Style Magazine, Womens Weekly, Adore Home og Cosmopolitan þrátt fyrir að fyrirtækið sé sé mjög nýtt af nálinni. Verðlagið á vörum þeirra er alls ekki ódýrt en hafa ber í huga að hver vara er handgerð og tekur nokkra daga í framleiðslu.




Hver vasi er unninn í höndunum en Helen, eiginmaður hennar og tengdafaðir vinna öll ákveðna færibandavinnu við það að setja saman hvern vasa en gætt er að hver vasi standist strangar útlitslegar og endingargóðar kröfur fjölskyldunnar. 




 Frida Kahlo vasinn er mjög vinsæll en bæði er hægt að láta vasana standa og festa þá upp á vegg. 





Litagleði! Þessi mynd er tekin á heimili fjölskyldunnar en þar býr Helen ásamt eiginmanni sínum og tveim börnum en á veggnum eru vatnsmelónuvasar frá Lovestar. 


Söluhæsta varan þeirra er virkilega skemmtileg handtaska en einnig eru þau byrjuð að framleiða fatnað og fylgihluti.



Lovestar heldur úti skemmtilegri facebook og instagram síðu fyrir áhugasama og ég veit ekki með ykkur en ég er alla vega byrjuð að safna fyrir einu ef ekki tveim hjörtum á vegginn!

Kær kveðja
Perla <3 





 

sunnudagur, 12. apríl 2015

Vírakarfan frá Ferm living

Ferm living framleiðir æðislegar og fjölnota vírakörfur í nokkrum stærðum og litum. Þær sóma sig vel hvort sem það er undir leikföng, viðarbjálka, handklæðin eða sem ruskakarfa! 





En einnig er hægt að fá viðarplötur til að breyta þeim í borð og fást plöturnar í þremur stærðum. 


Þetta borð á innanhússtíllistinn og vinkona mín Fjóla Finnbogadóttir og það sómar sér vel í félagsskap Eames ruggustólsins og hinum margrómaða Omaggio vasa. Stundum veit ég ekki hvort ég sé að heimsækja hana vegna frábærs félagsskaps eða til að dást að fallegu heimili hennar (held að bæði eigi við). 


Þessi stofa er í eigu lífstílsbloggarans Katerina Dima en hún heldur úti blogginu onlydecolove.com 



Hægt er að gera helling með því einu að hafa sterkan lit í körfunni og síðan er hægt að skipta um eftir ber hag. Einnig er sniðugt að nota bakka sem topp á borðið eða jafnvel snúa körfunni við og nota stærri plötu. Í raun er þetta spurning um að vera hugmyndaríkur og gera sem mest úr mublunni eftir sínum eigin smekk. 

Kær kveðja
Perla